Segir fráleitt að flugumferðarstjóri hafi verið neyddur til að vinna veikur

Þorgeir Pálsson, flugmálstjóri, segir í bréfi til Félags íslenskra flugumferðarstjóra, að fullyrðingar um að veikur flugumferðarstjóri hafi verið neyddur til að vinna við flugumferðarstjórn hinn 31. júlí sl. sé studd neinum rökum heldur gengið út frá því að um staðreynd sé að ræða. Segist Þorgeir engar upplýsingar hafa fengið, sem gefi ástæðu til að ætla að hér sé rétt með farið.

Bréf Þorgeirs er svar við bréfi, sem Félag íslenskra flugumferðarstjóra sendi honum, en þar var Þorgeir m.a. spurðu hvort hann teldi að flugumferðarstjóri, sem teldi sig tímabundið óhæfan til að sinna starfi sínu við flugumferðarstjórn á grundvelli laga um loftferðir, eigi samt að mæta til vinnu og sinna störfum sínum frekar en að tilkynna forföll.

Þorgeir segir í svarbréfinu, að tveir trúnaðarlæknar Flugmálastjórnar hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekkert væri því til fyrirstöðu að þessi starfsmaður kæmi til starfa á umræddum degi. Í kjölfar þess muni yfirmaður starfsmannsins hafa óskað eftir að hann kæmi til starfa. Engin fyrirmæli muni hafa verið gefin og því fráleitt að halda því fram að um einhvers konar nauðung hafi verið að ræða.

Þorgeir segir, að starfsmannahald og aðrir yfirmenn Flugmálastjórnar þurfi ekki að leita samþykkis flugmálastjóra til að framfylgja almennum vinnureglum stofnunarinnar. Því hafi engin þörf verið á, að leita slíks samþykkis í umræddu tilviki. Flugmálastjóri muni ekki gefa út neinar yfirlýsingar varðandi ástand, sem reist sé á þeirri tilgátu, sem sett sé fram í bréfinu en engin rök séu færð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert