Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segist telja augljóst, eftir að hafa lesið skýrslu um ástæðu fyrir háu matvælaverði hér á landi, að fella þurfi niður vörugjöld.
„Skattur á matvæli þarf að vera sá sami, þar á meðal á hótelum og veitingahúsum. Breyta þarf innflutningsverndinni þannig að samkeppni aukist. Hvað réttlætir t.d. að við borgum miklu hærra verð fyrir kjúklinga og svínakjöt en aðrir neytendur í Evrópu. Það er enginn eðlismunur á þessari framleiðslu og margvíslegri annarri framleiðslustarfsemi í landinu sem býr við óhefta samkeppni við önnur lönd,” sagði Halldór í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem hófst nú síðdegis en á morgun verður kjörinn nýr formaður flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft oftrú á samstarfinu við Bandaríkin
Halldór kom inn á varnarmálin í ræðu sinni og sagði, að þar sem Bandaríkjamenn hafi ákveðið einhliða að fara með allt sitt lið og búnað frá Íslandi, þurfi Íslendingar að styrkja samband sitt við Evrópu því stórar ákvarðanir sem varða framtíð þjóðarinnar eigi hún að taka á eigin forsendum og á þeim tíma sem henni hentar best en ekki þegar við getum ekkert annað.
„Reynslan af varnarsamstarfinu við Bandaríkin ætti að vera okkur nægileg lexía í þeim efnum. Sjálfstæðiflokkurinn hefur farið fremst þeirra sem hafa haft oftrú á samstarfinu við Bandaríkin og skynsamir menn á þeim bæ hljóta að sjá að nú þarf að skoða margt í nýju ljósi,” sagði Halldór.
Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks velferðarstjórn
Formaður Framsóknarflokksins segir, að þegar litið er til þróunar ríkisútgjalda á síðustu árum megi sjá svo ekki verði um villst, að samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafi skilað sér í stórauknum framlögum til mikilvægra velferðarmála. Velferðarstjórn væri því réttnefni á stjórnarsamstarfi flokkanna tveggja.
Varhugavert að hækka fjármagnstekjuskattinn
Halldór gerði fjármagnstekjuskattinn að umtalsefni í ræðu sinni. „Nú hefur komið í ljós að þeir sem starfa við fjármálastarfsemi á eigin vegum þurfa engin laun að reikna sér þótt ákvæði skattalaga séu skýr. Verður ekki annað séð en að skattyfirvöld hafi vanrækt að gefa út viðmiðunarreglur um það þótt þau hafi verið afar nákvæm á öðrum sviðum. Því verður vart trúað að þeir sem hafa eingöngu tekjur af fjármagnstekjum vinni ekkert að öflun teknanna og séu iðjulaust fólk.
Á sama hátt og það er mjög varhugavert að hækka fjármagnstekjuskattinn er sjálfsagt að fylgja anda skattalaga á þessu sviði sem öðrum. Þetta er því ef til vill ekki spurning um að breyta lögum, heldur miklu fremur að fylgja þeim eftir í samræmi við vilja löggjafans,” sagði Halldór.
Tapað mörgum orrustum við fíkniefnavágestinn
Halldór fór í ræðu sinni yfir þau ýmsu mál sem hann kom að á löngum stjórnmálaferli. Sagði hann pólitíkina snúast um meira en kvótann, sölu banka og stóriðju.
„Hún snýst ekki síst um viðkvæma þætti í brothættum strengjum mannlegs lífs. Ég er stundum spurður um það þegar ég ræði framfarirnar, hvað hafi mistekist. Að sjálfsögðu bíða mörg viðfangsefni og hin pólitíska dagskrá tekur engan enda. Eitt mál vil ég að leiðarlokum gera að umtalsefni. Það eru fíkniefnamálin. Við gerðum þau að geysistóru áherslumáli í kosningunum 1999 og í kjölfarið var mikið átak gert í baráttunni við þennan mesta vágest samtímans. Við höfum unnið einhverjar orrustur í þessari baráttu en tapað miklu fleiri. Í fréttum af útihátíðum um verslunarmannahelgina var talað um að þær hefðu farið vel fram. Í framhaldinu kom fram að nálægt 70 fíkniefnatilfelli komu upp á Akureyri. Það er ljóst að sölumenn dauðans eru í fullu fjöri. Þeirra vinna er að leggja líf ungmenna í rúst.
Eitt af því sem hefur verið að gerast og ég hef stórar áhyggjur af, er þróun hér á landi í þá átt að hér séu að skjóta rótum alþjóðleg samtök um skipulagða glæpastarfsemi. Við höfum því miður vísbendingar um að þeirra starfsemi sé að eflast hér á landi. Það eru mjög váleg tíðindi, enda er tilgangur slíkra samtaka vitaskuld sá að vega að æsku landsins og byrla henni eitur og græða á ógæfu annarra. Ég hlýt að viðurkenna að okkur sem förum með stjórn þessa lands hefur ekki tekist nægilega vel upp í þessari baráttu og við verðum að herða tökin með því að efla löggæsluna og gefa henni auknar heimildir í þeirri baráttu,” sagði Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins.