Amnesty International mannréttindasamtökin saka Ísraelsstjórn um að hafa framið stríðsglæpi í Líbanon og Hizbollah einnig. Samtökin halda því fram að eyðilegging á heimilum Líbana hafi verið „hluti af hernaðaráætlun" Ísraela og krefjast þess nú að Sameinuðu þjóðirnar rannsaki málið. Mark Regev, talsmaður utanríkisráðuneytis Ísraels, segir stjórn landsins engin lög hafa brotið.
Regev segir aðgerðir Ísraela í Líbanon í fullu samræmi við það sem gerist í stríðsátökum og í samræmi við alþjóðalög. „Ólíkt Hizbollah-samtökunum réðumst við ekki viljandi á líbanska borgara. Þvert á móti reyndum við að vera eins nákvæmir og mögulegt var hvað varðar árásir á hryðjuverkasamtökin Hizbollah," sagði Regev.
Amnesty segir 50% heimila hafa verið jöfnuð við jörðu í þorpunum Markaba og Qantarah og 80% heimila í þorpinu Tayyabah. Allar byggingar í miðbæ bæjarins Bint Jbail séu í rúst eða mjög illa leiknar. Góðgerðarsamtökin Donatella Rovera segja sönnunargögn til fyrir því að árásir hafi verið of harðar miðað við aðstæður. Amnesty segir ljóst að Hizbollah hafi líka framið stríðsglæpi. Fréttavefur Sky segir frá þessu.