Ópið og Madonna Edvards Munch fundin

„Ópið“ eftir Edvard Munch er eitt af þekktustu listaverkum í …
„Ópið“ eftir Edvard Munch er eitt af þekktustu listaverkum í heimi. Reuters

Norska lögreglan greindi frá því rétt í þessu að myndir Edvards Munch Ópið og Madonna séu fundnar en myndunum var stolið af Munch safninu í Ósló í ágúst 2004. Þrír menn voru dæmdir fyrir stuldinn á málverkunum í maí á þessu ári en verkin hafa þó ekki fundist fyrr en nú. Alþjóðlegar lögreglusveitir hafa leitað að myndunum og hafði Óslóar-borg heitið 22 milljónum íslenskra króna í fundarlaun.

„Í tvö ár og níu daga höfum við leitað að skipulega að þessum myndum og nú höfum við fundið þær,” sagði Iver Stensrud, sem leitt hefur rannsókn málsins, á blaðamannafundi í dag. „Þetta er gleðidagur fyrir okkur í lögreglunni, fyrir eigendur myndanna og ekki síst fyrir almenning, sem mun brátt geta dáðst að þeim að nýju.

Ekki hefur verið greint frá því hvar myndirnar fundust en þær eru sagðar hafa fundust í dag og vera nokkuð vel með farnar. „Skemmdir á myndunum eru mun minni en búist hafði verið við,” sagði Stensrud. Þá sagði hann tveggja manna enn leitað vegna málsins.

Munch (1863-1944) vann nokkrar gerðir af hvorri mynd en Ópið, sem er sagt tákna þjáningar manns í tilvistarkreppu, er almennt talið hans merkasta verk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert