Bush telur Bandaríkjamenn of háða olíu annarra ríkja

George W. Bush Bandaríkjaforseti í ræðustóli í dag.
George W. Bush Bandaríkjaforseti í ræðustóli í dag. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að mikilvægt væri að Bandaríkjamenn yrðu að losa sig undan því að vera háðir olíu erlendis frá. Efnahagur Bandaríkjanna færi batnandi og næg störf í boði. Bush hélt ræðu í Maryland í dag í tilefni af Degi verkalýðsins og sagði í henni að vandamálið væri að Bandaríkjamenn „flyttu inn olíu frá heimshlutum þar sem íbúum væri hreinlega illa við þá".

„Þeim mun háðari sem við erum þess konar orkugjafa, þeim mun ólíklegra verður það að við verðum samkeppnishæf við önnur lönd og að fólk geti verið í vellaunuðum störfum," sagði Bush. Forsetinn sagðist hafa áhuga á rafknúnum bifreiðum og etanól-hleðslum fyrir bifreiðar. Þá vék hann einnig að kjarnorku. „Kjarnorka er öruggur orkugjafi og kjarnorka er hrein og kjarnorka er endurnýtanleg," sagði forsetinn.

„Skilaboð mín til heimsins eru þessi: Komið fram við okkur eins og við komum fram við ykkur," sagði Bush. Hann tryði því að Bandaríkin væru samkeppnishæf við hvaða ríki sem er og hvenær sem er, svo lengi sem leikreglurnar væru sanngjarnar. Þá hvatti hann Bandaríkjaþing til þess að lögfesta varanlegar skattalækkanir og sagði: „Mér líkar það þegar fólk sem vinnur fyrir sér hefur meira handa á milli eftir skattgreiðslur".

Bush þakkaði hermönnum fyrir þær fórnir sem þeir hefðu fært í baráttunni gegn hryðjuverkum. „Þeir heyra stjórnmálaumræðurnar um þetta en fólkið í þessu landi, íbúar Bandaríkjanna, styður við þá karla og þær konur sem klæðast einkennisbúningum okkar (Bandaríkjamanna)".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka