Menntamálaráðherra í opinberri heimsókn í Kína

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra er ásamt Kristjáni Arasyni eiginmanni sínum stödd í opinberri heimsókn í Kína dagana 14.-19. september í boði Sun Jiazheng menningarmálaráðherra Kína. Er með heimsókninni verið að endurgjalda heimsókn kínverska ráðherrans til Íslands árið 2003. Menntamálaráðherra átti fund með Sun Jiazhengt í dag föstudaginn 15. september. Ræddu ráðherrarnir samstarf ríkjanna á sviði menningarmála m.a. á vettvangi UNESCO. Einnig var undirritað samkomulag um menningarsamskipti Íslands og Kína árin 2007-2010. Hyggjast stjórnvöld beggja ríkja stuðla að og greiða fyrir beinum tengslum og skiptiheimsóknum listamanna og stjórnenda á listasviðinu sem og háskólakennara og námsmanna milli Kína og Íslands.

Menntamálaráðherra átti jafnframt fund með Chen Zhili, fyrrum menntamálaráðherra og fulltrúa í kínverska ríkisráðinu. Chen er önnur valdamesta kona Kína og er æðsti yfirmaður mennta- og vísindamála í Kína Hún er væntanleg til Íslands í heimsókn í næstu viku og mun þá m.a. kynna sér starfemi íslenskra háskóla.

Einnig átti ráðherra fund með Zhou Ji, menntamálaráðherra Kína, og Shang Jong, ráðherra vísinda- og tæknimála.

Á fundum með kínverskum ráðherrum kom í ljós mikill áhugi á að efla samstarf ríkjanna á sviði mennta- og vísindamála. Chen Zhili og Zhou Ji lýstu yfir áhuga Kínverja á að starfrækja s.k. Konfúsíusar-miðstöð á Íslandi. Um 100 slíkar miðstöðvar eru starfræktar í heiminum, þar af um tuttugu í Evrópu en markmið þeirra er að miðla kennslu á kínverskri tungu og efla þekkingu á kínverskri menningu.

Menntamálaráðherra Kína hvatti jafnframt til eflingar samskipta á sviði vísindarannsókna m.a. með sameiginlegum rannsóknarverkefnum íslenskra og kínverskra vísindamanna og háskóla. Þá hafa Kínverjar hug á að kínverskir háskólar geti boðið upp á sameiginlegar námsgráður í samvinnu við íslenska háskóla.

Fimmtudaginn 14. september var haldin athöfn í Beijing Foreign Studies University. Nú í haust hófst þar kennsla í íslensku í fyrsta skipti og af því tilefni afhenti menntamálaráðherra fyrir hönd íslensku þjóðarinnar bókagjöf til handa háskólanum. Alls er um 1.600 bækur að ræða, sem flestar eru gefnar af íslenskum bókaútgefendum, og munu að stofni til mynda eitt stærsta íslenska bókasafn Asíu. Tók Hao Ping rektor BFSU á móti bókagjöfinni í athöfninni.

Samskipti Íslands og Kína í menntamálum hafa aukist hröðum skrefum undanfarin ár ekki síst vegna stóraukinna viðskipta ríkjanna sem kallar á sérhæft starfsfólk er hefur þekkingu á menningu og tungu Kína. Íslenskir háskólar eiga í margvíslegum samskiptum við kínverska háskóla og stunda nú tugir íslenskra námsmanna nám í Kína.

Menntamálaráðherra mun í heimsókn sinni heimsækja Háskólann í Shanghai en þar mun dr. Tryggvi Þór Herbertsson flytja fyrirlestur um íslenskt efnahagslíf. Þá mun ráðherra funda með ráðamönnum Shanghai-borgar.

Í fylgdarliði ráðherra eru Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri, Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður ráðherra, Karitas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri menningarskrifstofu og Hellen Gunnarsdóttir deildarstjóri háskólamála í menntamálaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert