Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gagnrýndi á fundi borgarstjórnar í gær að borgarfulltrúar væru jafnan ávarpaðir þannig á fundunum að orðið „borgarfulltrúi" væri fyrst nefnt og síðan nafn þess fulltrúa. Stefán segir þetta ranga orðaröð og veltir því fyrir sér hvort þarna sé gömul, dönsk venja á ferð.
Stefán beindi þeirri ósk til forsætisnefndar, sem undirbýr fundi borgarstjórnar, að þetta yrði tekið til umræðu og fengnir íslenskufræðingar til að gefa álit um hvort þetta samræmdist íslenskum reglum og venjum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, lofaði því að þetta mál yrði tekið til umræðu. Svo segir á vefsíðu Stefáns.
Stefán lagði einnig til að orðið ,,valinkunnur" yrði fellt brott úr samþykkt um hundahald. Í stað þess að í samþykktinni standi að hundaeigendur geti fengið undanþágu frá banni við hundahaldi þá eigi þeir að geta fengið leyfi til að halda hund.
„Í samþykktinni segir nú m.a. að umsókn um undanþágu frá banni við hundahaldi skuli fylgja meðmæli tveggja valinkunnra manna um hæfi umsækjanda til að halda hund. Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi, lagði til að þetta orð, valinkunnur, yrði fellt brott þar sem það hefði enga merkingu í þessu samhengi og ekki væri vitað til þess að umsóknir væru skoðaðar með tilliti til þess hvort meðmælendur væru valinkunnir eða ekki,“ segir á síðu Stefáns.
Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs, sagði réttara að orða þetta þannig að menn fengju „leyfi til hundahalds“ og því vildi hann ekki samþykkja tillögu Stefáns, að því er segir í pistlinum.