Illa brotinn eftir bílslys á Kringlumýrarbraut

Ökumaður fólksbifreiðar sem ekið var norður Kringlumýrarbraut í kvöld er illa brotinn en ekki í lífshættu eftir alvarlegt slys. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík virðist sem ökumaðurinn hafi fipast við aksturinn, en væntanlega var bifreiðinni ekið of hratt og sveigt oft á milli akreina, þannig að hann rekst utan í annan bíl og kastast í gagnstæða átt, það er fyrir umferð sem ekið er suður Kringlumýrarbraut.

Þar lenti hann utan í jeppa, en ökumaður jeppans slapp ómeiddur, og við þetta valt fólksbíllinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þurfti að loka Kringlumýrarbraut við gatnamót Miklubrautar til suðurs í tæplega eina og hálfa klukkustund vegna slyssins.

Ökumaðurinn sem olli slysinu er brotinn á báðum fótum og mjaðmagrindarbrotinn en klippa þurfti bifreiðina til að ná ökumanninum út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert