Friðarstofnun Reykjavíkur stofnuð í Höfða

Rudolf Schuster, fyrrverandi forseta Slóvakíu og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri …
Rudolf Schuster, fyrrverandi forseta Slóvakíu og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hefur beitt sér fyrir að komið verði á fót Friðarstofnun Reykjavíkur í samstarfi við innlenda og erlenda aðila í tilefni af 20 ára afmæli leiðtogafundarins í Höfða.

Markmið Friðarstofnunar Reykjavíkur er að fjalla um friðarmál á alþjóðlegum vettvangi og að bjóða deiluaðilum víðs vegar um heim til viðræðna um friðsamlega nálgun og niðurstöðu deilumála.

Höfði verður táknrænn fundarstaður Friðarstofnunarinnar, en að mati fræðimanna er talið að á fundi leiðtoga stórveldanna tveggja hafi verið markað upphafið að endalokum kalda stríðsins, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.

„Ísland er herlaust land og engin hefð er hér fyrir hernaðaruppbyggingu né herrekstri. Því er Reykjavík einstakur vettvangur til viðræðna um friðsamlega úrlausn margvíslegra alþjóðlegra deilumála,” segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri.

Borgarstjóri hefur farið þess á leit við Rudolf Schuster, fyrrverandi forseta Slóvakíu, að hann ræði við ýmsa forystumenn á sviði stjórnmála, viðskipta, lista, trú- og mannúðarmála víðs vegar um heiminn um aðkomu og þátttöku í starfi stofnunarinnar. Schuster mun vinna að undirbúningi Friðarstofnunar Reykjavíkur í samvinnu við skrifstofu borgarstjóra. Stefnt er að því að halda ráðstefnu um fríð í október ár hvert og leiða saman deiluaðila á alþjóðavettvangi þegar tilefni er til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert