Ungir frjálshyggjumenn ætla að selja bjór á morgun, föstudaginn 3. nóvember kl 14. Salan fer fram á Lækjartorgi og er í mótmælaskyni við einokun hins opinbera á sölu áfengis í landinu. Bjór verður seldur öllum sem náð hafa 20 ára áfengiskaupaaldri. Ungir frjálshyggjumenn vilja með þessu hvetja alþingismenn til að afnema lög um einokun ríkisins á sölu áfengis.
„Áfengi er lögleg vara á Íslandi. Neysla áfengis er lögleg. Því ætti sala áfengis að vera lögleg með sama hætti og öll önnur sala á vörum og þjónustu í landinu er lögleg. Frjáls sala áfengis þekkist í flestum löndum heims og ætti Ísland þar ekki að vera fast í viðjum fortíðar. Það er sjálfsagður réttur fullveðja einstaklinga að geta keypt áfengi eins og aðrar vörur í verslunum.
Að sama skapi ber að stefna að afnámi tolla og vörugjalda af áfengi svo það heyri til fortíðar að aðeins hinir ríku og efnameiri geti keypt vín með helgarsteikinni. Samkeppni einkaaðila á sviði áfengissölu er til þess fallin að auka verulega þjónustu við neytendur með auknu úrvali, lægra verði og bættu aðgengi að áfengi. Undir einokun ríkisins er áfengi aðeins selt á helstu þéttbýlisstöðum og þurfa margir að fara um langan veg til að sækja vín með matnum. Í frjálsu skipulagi koma vörurnar þangað sem einhver er reiðubúinn að kaupa þær," að því er segir í fréttatilkynningu frá ungum frjálshyggjumönnum.