Keppnin um sterkasta mann heims haldin í Reykjavík

Dagana 20. – 25. nóvember nk. fer fram keppnin um sterkasta mann heims (IFSA Strongman) á Íslandi. Alls eru 24 þátttakendur skráðir til leiks, þar af þrír íslenskir aflraunamenn, og í ár er keppnin tileinkuð Jóni Páli Sigmarssyni sem vann titilinn sterkasti maður heims fjórum sinnum.

Þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin hér á landi en árið 1992 varð Magnús Ver Magnússon annar í keppninni eftir að hafa sigrað í henni árið áður. Alls hefur Magnús hlotið nafnbótina „sterkasti maður heims“ fjórum sinnum líkt og Jón Páll, en 10 ár eru liðin frá fjórða titli Magnúsar.

Magnús heldur utan um keppnina hér á landi og að hans sögn er hún mun viðameiri heldur en sú sem fór fram hér á landi fyrir 14 árum. Aðspurður væntir hann þess að Íslendingar styðji við bakið á sínum mönnum, en þeir Benedikt Magnússon, Georg Ögmundsson og Stefán Sölvi Pétursson keppa fyrir Íslands hönd í ár.

Síðasta keppnin fór fram í Kanada og þá fór Litháinn Zydrunas Savickas með sigur af hólmi og þykir hann vera sigurstranglegur, enda heljarmenni að stærð. Savickas vegur um 170 kíló og er tæpir tveir metrar á hæð.

Framleiddir verða sjónvarpsþættir um keppnina og þeir verða sýndir í 219 löndum á 15 tungumálum og ná að lágmarki til 350 milljón heimila að því er segir í fréttatilkynningu.

Undanúrslit keppninnar fara fram í kerskála Alcan í Straumsvík 20. nóvember, en sjálf úrslitin fara svo fram í Reiðhöllinni í Víðidal 24.-25. nóvember.

Douglas Edmunds, sem er stofnandi IFSA Strongman, segir það afar ánægjulegt að halda keppnina í Reykjavík. Hann segir Jón Pál hafa svo sannarlega hafa komið eins og vítamínsprauta inn í greinina á sínum tíma með sínu leiftrandi keppnisskapi og kímni. Auk þess hafi hann komið Íslandi á kortið í Kraftaíþróttinni.

Sigurvegari keppninnar mun fá að launum sérsmíðaðan verðlaunagrip í ár sem er stytta af Jóni Páli. Stefnt er að því að styttan af honum verði verðlaunagripurinn sem kraftajötnarnir munu keppa um í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert