Aðflugsæfingar Airbus A380 tókust vel

Það er ekki á hverjum degi sem stærsta farþegaflugvél í heims lendir á Keflavíkurflugvelli, en í dag kom Airbus A380 hingað til lands til þess að æfa aðflug í hliðarvindi.

Æfingaaðstæður voru kjörnar en vindhraðinn á vellinum mældist vera á bilinu 35–45 hnútar þegar vélin lenti skömmu fyrir klukkan eitt í dag. Þar staldraði hún ekki lengi við heldur tók aftur á loft og gerði í framhaldinu nokkrar aðflugsæfingar sem blaðamenn fengu að fylgjast með.

Það er óhætt er að segja að það hafi verið magnað að fylgjast með því hvernig flugvél af þessari stærðargráðu getur athafnað sig í loftinu, og ekki síst í jafnmiklu hvassviðri og raun bar vitni. Til gamans má geta að vélin er fimm sinnum þyngri en Boeing 757-vélar, sem eru algengar á Keflavíkurflugvelli. Heildarþunginn Airbus-vélarinnar nemur því um 560 tonn. Þá er ekki um neina smávængi að ræða á vélinni en vængirnir náðu nánast út fyrir flugbrautina á Keflavíkurflugvelli.

Miðað er við að A380 flugvélarnar geti flutt 5-600 farþega og er farþegarými á tveimur hæðum, en enn er beðið þess að þær fari í almenna framleiðslu og sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert