Bæjarráð Fuenlabrada á Spáni hefur lagt það til að annað hvert þeirra umferðarskilta bæjarins sem sýna manneskjur verði með mynd af konu. Konan eigi að vera í pilsi og með tagl. Bærinn er suður af höfuðborginni Madrid og stendur til að endurnýja umferðarskilti og -ljós sem eru úr sér gengin innan árs.
,,Með þessu verður kynjamismunun þeirri útrýmt sem sést hefur í karlmannlegum myndum á umferðarskiltum fram til þessa," segir í yfirlýsingu bæjarráðsins. Þessi kynskipti muni ekki kosta bæjarbúa neitt. Reuters segir frá þessu. Þess má geta að 1. nóvember s.l. lagði Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar, fram tillögu um að sett yrðu upp gönguljós á fimm áberandi stöðum í Reykjavík þar sem gangbrautarljósið sýndi konu en ekki karl.