Danir líta niður á þá sem tala mállýskur eða dönsku með erlendum hreim, samkvæmt fjölda rannsókna sem vísindamenn á vegum Kaupmannahafnarháskóla hafa skoðað. „Spyrji maður fólk beint út segja flestir að þeim finnist mállýskum heillandi en allar rannsóknir sýna þó fram á annað. Í undirmeðvitundinni skynjum við einfaldlega fólk, sem talar mállýskur eða með hreim á neikvæðan hátt,” Pia Quist, málvísindavísindamaður við Kaupmannahafnarháskóla. Þetta kemur fram á fréttavefnum Erhverv på nettet.
Samkvæmt því sem fram kemur í rannsóknunum líta Danir svo á að þeir sem tala mállýskur eða með hreim séu feimnari, félagslega vanhæfari og jafnvel heimskari en þeir sem gera það ekki. Þá sýna þær að enginn munur er á því hvaða augum þeir sem tala mállýskur eða með hreim líta málið og þeir sem gera það ekki.
Samkvæmt upplýsingum vísindamannanna eru fordómar í garð þeirra sem tala mállýskur eða með hreim meiri í Danmörku en í öðrum löndum og segja þeir líklegt að það hafi þau áhrif að danskan verði einsleitari en önnur tungumál.
„Það er hætta á því að þeir sem tala gamalt mál eða með erlendum hreim einangrist í samfélaginu enda er erfitt að ná árangri þegar maður býr voð það að litið sé niður á mann. Þetta leiðir til þess að fólk reynir að laga sig að þeirri tungumálanotkun sem er ríkjandi í samfélaginu,” segir Gitte Gravengaard, sérfræðingur í samskiptum við Kaupmannahafnarháskóla.