Forseti Túrkmenistans látinn 66 ára að aldri

Saparmurat Niyazov, forseti Túrkmenistan
Saparmurat Niyazov, forseti Túrkmenistan Reuters

Saparmurat Niyazov, forseti Túrkmenistans, er látinn 66 ára að aldri ef marka má fréttir ríkissjónvarpsins þar í landi. Hann stjórnaði Mið-Asíuríkinu, sem er auðugt af jarðgasi, í 21 ár. Stjórnarhættir forsetans voru um margt sérkennilegir og var ýtt undir mikla persónudýrkun á honum.

Niyazov lést um klukkan 1:10 í nótt að staðartíma (klukkan 20:10 að íslenskum) en hann fékk skyndilega fyrir hjartað.

Niyazov varð formaður Kommúnistaflokksins í landinu árið 1985, þegar það heyrði undir Sovétríkjunum, og hann varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti sjálfstæðs Túrkmenistan árið 1991.

Í síðasta mánuði greindi forsetinn almenningi frá því að hann ætti við hjartasjúkdóm að stríða.

Árið 1999 gerði þing landsins hann að forseta til lífstíðar. Niyazov stýrði landinu með tilskipunum um allt milli himins og jarðar. Hann nefndi mánuði og daga eftir sjálfum sér og fjölskyldu sinni og fyrirskipaði að styttur af sér yrðu reistar víða í landinu. Þá voru borgir og flugvöllur nefnd eftir honum. Undir það síðasta bannaði forsetinn landsmönnum að hlusta á útvarp í bílum sínum, að reykja á almannafæri og láta sér vaxa skegg.

Niyazov þoldi enga gagnrýni eða pólitíska andstöðu og banatilræði sem honum var sýnt árið 2002 var notað sem átylla til að brjóta andstæðinga hans á bak aftur. Allir frambjóðendur í þingkosningum árið 2004 voru stuðningsmenn forsetans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka