Hvítá er nú farin að flæða yfir bakka sína við Brúnastaði í Flóahreppi og segir Ketill Ágústsson bóndi geysilega mikið rennsli vera í ánni. „Ég var að koma inn frá því að kanna aðstæður og áin er nú farin að renna yfir bakka sína á nokkrum stöðum. Það er þó ekkert sem ég að tel að verði til vandræða enda skilst mér að það séu líkur á að það fari að draga úr flóðinu er líður á daginn,” sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann fyrir stundu. „Það liggur nú vatn á túnum á nokkrum stöðum en ég hef ekki áhyggjur af því að það skemmi nokkuð. Það er enginn klakaburður í ánni og það breytir öllu því þegar klaki er í ánni þá heflar hann upp jarðveginn.” Ketill segir ána einnig greinilega hafa vaxið mikið neðar þar sem hún mæti Soginu og verði að Ölfusá.
Ketill greindi frá því í viðtali sem birt er í Morgunblaðinu í dag að hann hafi ekki fyrr séð Hvítá flæða yfir bakka sína án þess að ísstíflur væru í henni. Faðir hans hafi þó sagt honum að slíkt hafi gerst.