Bandaríski tónlistarmaðurinn James Brown, sem kallaður var guðfaðir sálartónlistarinnar, er látinn 73 ára að aldri. Að sögn bandarískra fjölmiðla var Brown lagður inn á sjúkrahús í Atlanta í Georgíu í gærkvöldi vegna lungnabólgu og lést í nótt að sögn umboðsmanns tónlistarmannsins.
Brown fæddist árið 1933. Hann hóf tónlistarferil sinn árið 1953 og öðlaðist frægð á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda en þá hélt hann fjölda tónleika og gaf út vinsælar plötur. Á síðari hluta sjöunda áratugarins náðu vinsældir Brown hámarki en þá kom hann tveimur lögum, Papa's Got a Brand New Bag og I Got You (I Feel Good), í efstu sæti vinsældarlista.
Brown hélt tónleika hér í Laugardalshöll í Reykjavík í ágúst 2004.