Kveikt í flugeldum inni í bíl

Lögreglan á Akureyri fékk í gærmorgun tilkynningu um skemmdarverk á bíl, sem hafði verið lagt í Frostagötu utan við Bílakúbb Akureyrar. Eigandi bílsins hafði skilið við hann fyrir utan húsið um kl. 4 aðfaranótt sunnudags. Hafði hann skilið flugeldatertur og nokkra flugelda eftir í aftursæti bifreiðarinnar en þegar eigandinn kom aftur að bílnum á tíunda tímanum um morguninn sá hann hvar búið var að brjóta rúðu í bifreiðinni og skjót upp tertunum og flugeldunum inni í bifreiðinni.

Lögreglan segir, að bíllinn sé mikið skemmdur að innan og mildi að ekki hafi kviknað í honum. Óskar lögreglan eftir því, að þeir sem geti gefið upplýsingar um mannaferðir og annað sem gæti hjálpað til við að upplýsa málið láti vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert