Mál gegn bróður Osama bin Laden fellt niður

Ekki er vitað hvort Osama bin Laden er lífs eða …
Ekki er vitað hvort Osama bin Laden er lífs eða liðinn Reuters

Franskir dómstólar hafa vísað frá máli franska ákæruvaldsins gegn Yeslam Binladin, hálfbróður hryðjuverkamannsins Osama bin Laden.Rannsókn hefur staðið yfir síðan árið 2001, en frönskum yfirvöldum var þá gert viðvart um grunsamlegar millifærslum á háum fjárupphæðum milli fyrirtækja sem tengdust Binladin.

Einkum beindist rannsóknin að 300 milljón dala greiðslu frá Sviss til Pakistan sem talið var að tengdist hryðjuverkasamtökunum al-Qaída, en Osama bin Laden er leiðtogi þeirra.

Rannsóknin sem varð til þess að frönsk yfirvöld hófu málarekstur gegn Binladin var einkaframkvæmd fjármögnuð af lögfræðingum sem störfuðu fyrir ættingja fólks sem lést í hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin árið 2001.

Umrædd millifærsla er sögð hafa verið gerð í útibúi Deutsche Bank í Genf, en bankinn segir að engin gögn fyrirfinnist em staðfesti þetta. Dómarinn Renaud Van Ruymbeke, sem rekið hefur málið, vísaði málinu svo frá vegna skorts á sönnunargögnum, eftir að svissnesk stjórnvöld neituðu að láta honum í té skjöl og gögn sem tengdust málinu.

Binladin fæddist í Sádí-Arabíu og á sama föður og Osama Bin Ladin, hann er svissneskur ríkisborgari og ritar nafn sitt öðruvísi en aðrir í fjölskyldunni. Hann segist engin tengsl hafa haft við Osama bin Laden síðan árið 1981. Segir Binladin að einu tengslin séu sameiginlegur bankareikningur sem tengist arfi eftir föður þeirra, sem skiptist á milli fimmtíu og fjögurra barna hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert