Atferli jeppaökumanna rannsakað

00:00
00:00

Ný­sjá­lensk­ir vís­inda­menn sem rann­sakað hafa at­ferli þarlendra jeppa­öku­manna und­ir stýri segj­ast hafa kom­ist að því, að minni lík­ur séu á að öku­menn stórra jeppa fari að eins og ábyrg­um öku­mönn­um sæm­ir, miðað við aðfar­ir annarra öku­manna.

Ný­sjá­lensku at­ferl­is­fræðing­arn­ir könnuðu at­ferli tæp­lega tólf hundruð landa sinna und­ir stýri á stór­um jepp­um og fylgd­ust sér­stak­lega með því hvort þeir ækju með báðar hend­ur á stýri - í tíumín­út­ur í tvö-stell­ing­unni svo­nefndu - sem er ein­kenn­is­staða hins ábyrga öku­manns.

Í ljós kom, að 55 pró­sent meiri lík­ur voru á því að jeppa­öku­menn væru aðeins með aðra hönd á stýri, miðað við öku­menn fólks­bíla og minni jeppa.

Í breska vís­inda­rit­inu New Scient­ist, sem greindi frá rann­sókn­inni á laug­ar­dag­inn, er haft eft­ir ein­um höf­unda rann­sókn­ar­inn­ar, Jared Thom­as, sem starfar við Opus-at­ferl­is­rann­sókna­stofn­un­ina í Well­ingt­on, að jeppa­öku­menn teldu sér lík­lega bet­ur borgið þar sem þeir væru í stór­um bíl­um og upp­lifðu síður en aðrir öku­menn að hætta steðjaði að þeim.

Rann­sókn­in í heild er birt í sér­fræðirit­inu Tran­sportati­on Journal.

Bresk rann­sókn sem gerð var í fyrra leiddi í ljós að hátt í einn af hverj­um tólf öku­mönn­um stórra jeppa í London töluðu í sím­ann und­ir stýri, eða fjór­falt fleiri en öku­menn annarra bíla.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert