Austurrískir slökkviliðsmenn komu 81 árs gamalli konu til bjargar sem hafði setið föst í baðkarinu sínu í fjóra daga. Konan hafði ákveðið að fara í heitt bað en þegar hún ætlaði að standa upp hafði hún ekki kraft til þess. Frá þessu greindu austurrísk yfirvöld í dag.
Nágrannar konunnar létu yfirvöld vita þegar þeir þóttust heyra í konunni banka inni í íbúðinni. Slökkviliðsmenn fóru í framhaldinu inn í íbúð konunnar í Linz, sem er í um 200 km fjarlægð vestur af Vín.
Konan var í furðu góðu ásigkomulagi þrátt fyrir að hafa legið í baðinu frá því á fimmtudagskvöld að sögn slökkviliðsins. Þeir segja að konan hafi ekki haft kraft til þess að standa upp úr baðinu og því hafi hún bankað og kallað eftir hjálp.
Konan var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.