Hvíthákarl sem beit um höfuð ástralsks kafara og gleypti hann að hálfu leyti tók hann líklega í misgripum fyrir sel, og vera má að hákarlinum hafi ekki líkað bragðið og þess vegna sleppt kafaranum, að því er sérfræðingar telja.
Kafarinn, Eric Nerhus, var við sæsniglaveiðar við Ástralíu með syni sínum og hópi vina þegar þriggja metra hákarl, sem talið er að hafi verið stóri-hvítháfur, réðist á hann. Hákarlinn braut kafaragrímu Nerhus, brákaði á honum nefið og beit hann í brjóstkassann.
Nerhus náði með annarri hendinni, sem ekki var í gini hákarlsins, að berja skepnuna og stinga hana í augað með sniglahnífnum sínum uns hún sleppti honum, að því er sjónarvottar greindu frá.
En sérfræðingar telja að hákarlinn hafi líklega haldið að Nerhus væri selur - hefðbundin fæða hákarla - og segja sumir að hákarlinn kunni að hafa orðið fyrir vonbrigðum með bragðið.
Nerhus var í svörtum blautbúningi og segja sérfræðingarnir að það kunni að hafa ruglað hákarlinn. Þeir segja með ólíkindum að Nerhus hafi sloppið lifandi úr gini eins harðsvíraðasta rándýrsins í heiminum.
Grant Willis, hákarlasérfræðingur í Sædýrasafninu í Sydney, segir að frásagnir af atburðinum bendi til að það geti munað öllu í tilvikum sem þessu að berjast við hákarlinn. Það geti ráðið úrslitum að berja hákarlinn í nefið og pota í augun á honum.
Nerhus var klæddur blýfóðruðu vesti og sérstyrktri grímu sem hlífði honum fyrir tönnum hákarlsins, en hann hlaut engu að síður djúpa skurði og missti mikið blóð.