Aðeins einn olíublautur fugl á Rosmhvalanesi

Olíumengun frá Wilson Muuga virðist ekki hafa haft áhrif á …
Olíumengun frá Wilson Muuga virðist ekki hafa haft áhrif á fuglalíf í nágrenni Hvalsness. mbl.is/ÞÖK

Nokkuð af olíu fór í sjóinn þegar flutningaskipið Wilson Muuga strandaði við Hvalsnes skömmu fyrir jól. Olían virtist hins vegar hafa brotnað fljótt niður og menn urðu ekki varir við olíublauta fugla í kjölfarið. Í fuglatalningu Náttúrufræðistofnunar, sem m.a. fór fram á þessu svæði, sást aðeins einn olíublautur æðarfugl í Ósum við Hafnir en slíkir fuglar sjást yfirleitt í hverri talningu, án þess að stórslys hafi orðið.

Leitað var sérstaklega að dauðum olíufuglum á allri strandlengjunni frá Hvalsnesi norður í Garð, með hjálp þrautþjálfaðs fuglahundsins Dr. Finns, en enginn olíufugl fannst á þeirri leið, að því er kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar.

Í talningunni, sem fór fram helgina 6.-7. janúar var talið á um 150 einstökum svæðum um land allt og hafa niðurstöður þegar borist frá 132 svæðum. Þegar hafa verið skráðir um 112 þúsund fuglar af 75 tegundum og segir stofnunin flest benda til þess, að tegundirnar verði nokkru færri en undanfarin ár. Munar þar mestu um þann fjölda flækingsfugla, sem komi fram hverju sinni.

Æður er langalgengust sem fyrr en óvenju fáir snjótittlingar sáust eins og jafnan þegar snjór er lítill. Óvenjumargar súlur sáust en þær koma yfirleitt að landinu síðla í janúar og fleiri hafernir, eða 12, sáust en nokkru sinni áður, allt frá Meðallandi í austri, vestur og norður um til Vestfjarða. Að öðru leyti virðast niðurstöður ekki skera sig verulega frá síðustu árum en nánar verður fjallað um talningu þegar öll gögn hafa borist.

Meðal sjaldgæfra fuglategunda má nefna hvítönd í Meðallandi og kúfönd á Sogi en sú síðarnefnda er sárasjaldgæfur flækingur frá Norður-Ameríku og er afar lík duggönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert