Hitastigið við yfirborð jarðar mun líklega hækka um á bilinu 1,8 til fjórar gráður fram til næstu aldamóta, samkvæmt „besta mati“ sem helsta vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna á sviði loftslagsbreytinga, IPCC, kom sér saman um í dag. Skýrsla nefndarinnar verður birt opinberlega í París á morgun.
Þessi hlýnun er „besta mat“ sérfræðinganna í spám fyrir 2090-2099 samanborið við 1980-1999, eftir því hversu mikið af koltvísýringi, sem er helsta gróðurhúsalofttegundin, verður losað út í andrúmsloftið fram til 2100.
Fyrir sex árum beitti IPCC nokkuð frábrugðnum reikniaðferðum og þá var niðurstaðan að hækkunin yrði á bilinu 1,4 til 5,8 gráður. Skýrslan sem birt verður á morgun er byggð á athugun á gögnum síðan 2001, og er samantekt á niðurstöðum þúsunda loftslagsvísindamanna sem rannsakað hafa allt frá borkjörnum til kóralrifja.
Einnig er búist við að í skýrslunni verði því lýst yfir að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sé að öllum líkindum meginástæðan fyrir þeirri hlýnun sem mælst hefur í andrúmsloftinu undanfarna hálfa öld.