Þota frá flugfélaginu Sterling, sem kom frá Kaupmannahöfn um miðnætti í gær og lenti á Egilsstaðaflugvelli, bilaði og urðu farþegar að gista á Héraði í nótt. Voru það u.þ.b. 60 farþegar sem urðu fyrir þessari ferðatöf.
Vel var hugsað um þessa farþega og fóru þeir sem á þurftu að halda á hótel en einhverjir heimamenn fóru aftur heim til sín að eigin ósk.
Að sögn flugvallarstjóra er um minniháttar bilun að ræða. Vélin er enn á flugvellinum en kallað var eftir flugvirkja frá Reykjavík sem hefur unnið að því að yfirfara vélina. Flugvallarstjóri býst við því að vélin verði orðin flugklár upp úr hádeginu en þá mun hún halda aftur til Kaupmannahafnar.