Bandarískur hermaður viðurkennir að hafa gerst liðhlaupi

Mark Wilkerson var á flótta í eitt og hálft ár.
Mark Wilkerson var á flótta í eitt og hálft ár. AP

Bandarískur hermaður, sem flýði herfylki sitt svo hann þyrfti ekki að fara í aðra ferð til Íraks, hefur játað að hafa gerst liðhlaupi. Mark Wilkerson má vænta þess að afplána 10 mánuði á bak við lás og slá í herfangelsi eftir að hafa gert samkomulag við ákæruvaldið, sagði lögmaður hans.

Wilkerson varði einu og hálfu ári á flótta þegar að hann sneri ekki aftur til Íraks eftir að hafa fengið leyfi til þess að fara heim í tvær vikur.

Hermaðurinn, sem þjónaði Bandaríkjaher í eitt ár í Írak, segist hafa hætt þegar honum var neitað að hann gæti lýst sig andsnúinn stríðinu, segir á fréttavef BBC.

„Ég hætti í hernum, og yfirgaf sveitina mína og ég skilaði mér ekki þegar ég átti að gera það,“ sagði hann við herdómara við réttarhöldin sem fram fóru í Texas.

Wilkerson vildi ekki tjá sig um hvar hann hafi verið sl. 18 mánuði en hann gaf sig fram í Fort Hood í ágúst sl., en hann sagðist vera orðinn þreyttur á því að flýja.

Hann skráði sig í herinn þegar hann var 17 ára og tók þátt í innrásinni í Írak árið 2003, en hann segist hafa misst trúna á stríðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert