Pentagon hættir við að sprengja risasprengju

Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon hefur hætt við áform sín að sprengja 700 tonna sprengju í eyðimörkinni í Nevada í Bandaríkjunum, en ráðuneytinu hafa borist fjöldi mótmæla frá umhverfisverndarsinnum auk þess sem því hefur verið hótað málsókn.

Tilangurinn með sprengingunni, sem hafði fengið viðurnefnið „Divine Strake“ (guðdómlega skrefið), var að safna saman upplýsingum sem nota mætti til þess að þróa vopn sem gætu eyðilagt neðanjarðarbyrgi sem eru grafin djúpt ofan í jörðu, og geyma efna- eða kjarnorkuvopn.

Sem fyrr segir var ætlunin að sprengja 700 tonn af hefðbundnu sprengiefni yfir göngum á æfingarsvæði í Nevada og rannsaka síðan áhrif sprengingarinnar á byggingar sem eru byggðar úr hörðu graníti. Ekki er um kjarnorkusprengingu að ræða.

Fljótlega fóru að berast málshöfðanir vegna tilraunarinnar og þá hafa íbúar í Nevada mótmælt sprengingunni, en þeir hafa áhyggjur af mögulegum áhrifum tilraunarinnar á umhverfið. Ef sprengjan hefði verið sprengd þá hefði myndast sveppalaga ský sem hefði náð rúmlega 3.000 metra hæð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert