Íslendingar telja íslenskar landbúnaðarvörur betri en erlendar

Nærri 94% landsmanna telja að miklu máli skipti að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar. Þá telur mikill meirihluti að íslenskar landbúnaðarvörur séu betri en erlendar og nærri 62% þjóðarinnar eru tilbúin að greiða hærra verð fyrir íslenskar landbúnaðarvörur en innfluttar.

Þetta kom fram í ræðu Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, við setningu Búnaðarþings í dag. Um er að ræða niðurstöður úr nýlegri könnun, sem Capacent - Gallup vann fyrir Bændasamtökin.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

  • 79% telja að bændur beri litla eða enga ábyrgð á háu matarverði hér á landi.
  • 74,7% sögðu gæði innlendra landbúnaðarvara meiri en erlendra. 2,3% töldu gæði innlendra landbúnaðarvara minni en erlendra.
  • 93,8% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar.
  • 79,9% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir.
  • 61,8% aðspurðra eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir íslenskar en innfluttar landbúnaðarvörur.
Úrtakið í könnuninni var 1350 manns á landinu öllu, 16-75 ára, handahófsvalið úr þjóðskrá.

Yfirskrift Búnaðarþings er Sveit og borg - saman í starfi. Haraldur sagði, að skoðanakönnunin sýndi svo ekki yrði um villst, að sveitin og borgin ættu góða samleið.

Haraldur Benediktsson setur Búnaðarþing.
Haraldur Benediktsson setur Búnaðarþing.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert