Sjálfsvígssprengjumenn gerðu árás á eftirlitsstöðvar hersins í Bagdad í dag með þeim afleiðingum að 28 létust á meðan erlendir sendifulltrúar sátu friðarráðstefnu í aðeins um þriggja km fjarlægð.
Í einni árásinni voru sex hermenn á meðal þeirra 26 sem létust er sjálfsvígsárásarmaður ók sprengjum hlaðinni bifreið á eftirlitsstöð við hliðið inn Sadr-borg í austurhluta Bagdad.
Árásarmaðurinn rakst á brú og olli mikilli eyðileggingu á stóru svæði, þá kviknaði jafnframt eldur.
Íraskir hermenn sem voru við eftirlitsstöðina tilkynntu um árásina og skömmu síðar komu fleiri hermenn á staðinn og svæðið var lokað.
Í yfirlýsingu frá Bandaríkjaher er aðeins talað um sex hermenn sem hafi látist og að 20 óbreyttir borgarar hafi særst. Læknir við Imam Ali sjúkrahúsið í borginni segir hinsvegar að sjúkraflutningamenn hafi flutt 18 lík og þá hafi verið gert að sárum 40 manns sem hefðu særst í sprengingunni.