Uppreisnarmenn í Írak sagðir hafa beitt börnum í sjálfsvígsárás

Bandarískur hermaður í Írak. Írösk börn sjást í baksýn.
Bandarískur hermaður í Írak. Írösk börn sjást í baksýn. Reuters

Uppreisnarmenn í Írak sprengdu sprengjum hlaðna bifreið eftir að bandarískir hermenn hleyptu henni í gegnum eftirlitsstöð í Bagdad um helgina. Í aftursæti bifreiðarinnar sem sprakk voru tvö börn. Bandaríkjaher greindi frá þessu í dag.

Bifreiðin var stoppuð við eftirlitsstöð en henni var hleypt í gegn þegar hermennirnir sáu börnin í aftursætinu segir hershöfðinginn Michael Barbero hjá herráði hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Hershöfðinginn segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hann sér skýrslu sem segir frá því að börn hafi verið notuð í sjálfsvígsárásir. Hann segir hinsvegar að al-Qaeda hryðjuverkasamtökin í Írak sé að breyta hernaðarskipulagi sínu til þess að svara aukinni öryggisgæslu í borginni.

Embættismaður hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu segir að umrædd árás hafi átt sér stað á sunnudag í Adhamiyah-hverfinu í Bagdad. Það er blandað hverfi gegnt Sadr-borg, en þar eru sjítar í meirihluta.

Eftir að bíllinn hafði ekið í gegnum eftirlitsstöðina var henni lagt við útimarkað sem var skammt frá skóla.

Tveir fullorðnir einstaklingar sáust fara út úr bifreiðinni og tóku þeir til fótanna. Stuttu síðar sprakk bifreiðin.

Börnin létust auk þriggja annarra sem voru í nágrenninu. Sjö særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka