Ísbjarnarhúnninn sagður hafa valdið dauða pandabirnu

Knútur veifar til ljósmyndara.
Knútur veifar til ljósmyndara. Reuters

Óhætt er að segja að mikið hafi gegnið á kring um ísbjarnarhúninn Knút frá því móðir hans, fyrrum sirkusdýr í Austur-Þýskalandi, hafnaði honum og honum var komið fyrir í dýragarðinum í Berlín. Náttúruverndarsinnar kröfðust þess þá að náttúran fengi að hafa sinn gang og að húnninn yrði látinn deyja og nú hefur hann verið sakaður um að valda dauða pandabirnunnar Yan Yan. Þetta kemur fram á fréttavefnum Times Online.

Yan Yan, sem var gjöf kínverskra yfirvalda til Helmut Kohl fyrrum kanslara Þýskalands, hafði verið vinsælasta dýr dýragarðsins í Berlín uns Knútur kom til sögunnar. Síðan þá hafa allt að 30.000 manns komið að skoða hann daglega og hafa margir þeirra kíkt á Yan Yan í leiðinni. Samkvæmt heimildum þýska blaðsins Bild reyndist öll þessi athygli pandabirnunni ofviða. „Hún virtist óróleg og óörugg,” segir heimildarmaður blaðsins og bætir því við að bein tengsl virðist vera á milli komu Knútar og dauða birnunnar sem var 22 ára.

Heinrich Kloes, talsmaður dýragarðsins segir Yan Yan ekki hafa sýnt nein merki um veikindi áður en hún drapst en að enn eigi eftir að skera úr um það hver dánarorsök hennar hafi verið.

Einungis 1.600 villtir pandabirnir eru nú til í heiminum og á tímabili var mikil von bundin við það að hún myndi fæða hún. Yan Yan og björninn Bao Bao virtust hins vegar missa allan áhuga eftir að hún missti fóstur árið 1997. Í kjölfar þess var reynd tæknifrjóvgun en allt kom fyrir ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka