Íslendingar eru duglegir að ferðast um víða veröld, en flestir á farartækjum á borð við flugvélar og bíla. Færri fara langferðir á reiðhjóli.
Það hefur Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur, þó nokkrum sinnum gert, og um aðra helgi leggur hann enn af stað í hjólaferðalag, og að þessu sinni er áfangastaðurinn Túrkmenistan.
Þetta er annar áfanginn á för Jóns eftir Silkileiðinni svonefndu, hinni fornu verslunarleið til Kína.
Jón hefur skrifað tvær bækur um fyrri hjólaferðir sínar. Á Jakobsvegi: hugsað upphátt á pílagrímaleiðinni til Santiago de Compostela, kom út 2002, og í fyrra kom Með skör járntjaldsins: hugsað upphátt á rafleiðinni frá Gdansk til Istanbúl.