N1 kemur í stað Bílanausts og ESSO

Merki N1 er hannað af auglýsingastofunni Fíton.
Merki N1 er hannað af auglýsingastofunni Fíton.

Fyrirtækið sem varð til við sameiningu á rekstri Olíufélagsins, Bílanausts og fleiri fyrirtækja hefur hlotið nafnið N1. Segir fyrirtækið, að markmiðið með sameiningunni sé að efla þjónustuna á öllum sviðum og leysa aukinn slagkraft úr læðingi. Alls mun þjónusta N1 verða í boði á um 115 stöðum um land allt.

Í tilkynningu segir Hermann Guðmundsson, forstjóri, að nafnið N1 hafa orðið fyrir valinu til að undirstrika þann metnað fyrirtækisins að vera í forystu hvað varðar góða þjónustu við bíleigendur, fólk á ferðinni og fyrirtækin í landinu.

„Nafnið er einfalt og skemmtilegt og hentar vel fyrir félag sem ætlar að sækja fram með nýjar hugmyndir og nýjar áherslur. Við erum ekki lengur olíufélag, heldur alhliða verslunar- og þjónustufyrirtæki. Kjörorð okkar er „Meira í leiðinni“, sem hefur tvíþætta merkingu. Í fyrsta lagi þýðir það að N1 er alltaf í grenndinni og í öðru lagi vísar það til stóraukins úrvals af vöru og þjónustu,“ segir Hermann í tilkynningunni.

N1 er tíunda stærsta fyrirtæki landsins með um 700 starfsmenn um land allt og um 35 milljarða króna veltu á ári. N1 er í eigu eignarhaldsfélagsins BNT.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka