Ný skýrsla um ástand hafíssins á Barentshafi hefur vakið ugg innan norsku ríkisstjórnarinnar, að því er segir á fréttavef Aftenposten, þar sem fullyrt er í fyrirsögn að helmingur Barentshafsíssins sé horfinn. Nánar tiltekið segir í frétt Aftenposten að í skýrslu nefndar undir forustu Norsku heimskautastofnunarinnar komi fram að á undanförnum tíu árum hafi helmingurinn af sumarísnum á Barentshafi horfið.
Þetta hafi haft þær afleiðingar að bæði fiski- og fuglastofnar á svæðinu hafi minnkað, þar sem hitastig hafi hækkað um heila gráðu á sama tímabili. „Minnkun hafíssins er sláandi,“ hefur Aftenposten eftir Björn Fossil Johansen, sem starfar hjá heimskautastofnuninni. „Loftslagið stjórnar að stórum hluta vistkerfinu í Barentshafi. Þetta mun hafa afleiðingar fyrir allt vistkefið.“
Þá segir Aftenposten að umhverfisráðherra Noregs, Helen Björnöy, hafi lýst miklum áhyggjum vegna skýrslunnar.