Geir: Auglýsing Jóhannesar ósmekkleg og óviðeigandi

Formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal í kvöld.
Formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal í kvöld. mbl.is/Brynjar Gauti

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðiflokksins, sagði í sjónvarpsumræðum í kvöld, að honum þætti auglýsing, sem Jóhannes Jónsson í Bónus birti í blöðum í dag, bæði ósmekkleg og óviðeigandi. Í auglýsingunni hvatti Jóhannes stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður til að strika yfir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Geir sagði aðspurður í þættinum, að sér þætti þetta of langt gengið og myndi ekki hafa áhrif á marga kjósendur.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að það væri óvenjulegt að fara fram á útstrikanir með opinberum hætti þótt slíkar útstrikanir hefðu oft farið fram. Sagðist Steingrímur telja, að margir hafi samúð með Jóhannesi og fjölskyldu hans og það sem fælist aðallega í gagnrýni hans væri, hve Baugsmálið svonefnda hefði verið lengi að þvælast í kerfinu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að um væri að ræða innanflokksmál í Sjálfstæðisflokknum. Jóhannes væri innanbúðarmaður í flokknum og hefði getað skrifað grein um málið þótt hún hefði ekki vakið eins mikla athygli.

Í þessu sambandi var Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokks, spurður um sjónvarpsauglýsingar frá flokknum þar sem vísað er til Steingríms J. Sigfússonar. Jón sagði, að Framsóknarflokkurinn hefði fyrst og fremst lagt áherslu á að kynna eigin mál, en þessar auglýsingar væru eðlilegt svar við allskonar aðkasti, sem Framsóknarflokkurinn hefði orðið fyrir, m.a. af hálfu VG. Steingrímur sagðist telja að þessar auglýsingar hefðu skaðað Framsóknarflokkinn.

Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar, sagði eðlilegt, að Jóhannes væri sár. Sagðist Ómar skilja hann vel enda hefði hann sjálfur þurft að þola að ósekju ásakanir um brot á náttúruverndarlögum frá einum af innstu koppum í búri Framsóknar á Héraði.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tjáði sig ekki sérstaklega um þetta mál en gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir ýmis mál, þar á meðal núverandi skattakerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka