Górilla, sem slapp úr dýragarði í miðborg Rotterdam í Hollandi, ruddist inn í nálægan veitingastað og dró þar konu með sér í gegnum húsið. Konan og þrír aðrir slösuðust nokkuð. Nokkru síðar tókst að yfirbuga apann með því að skjóta deyfilyfjum í hann.
Górillan, sem nefnist Bokito, slapp úr dýragarðinum með því að stökkva yfir sýki, sem skilur apasvæðið frá áhorfendasvæðinu. Dýragarðurinn var rýmdur í kjölfarið en apinn hljóp að veitingahúsi og þreif með sér konu, sem stóð þar fyrir utan. Inni í veitingastaðnum braut apinn allt og bramlaði áður en hann var yfirbugaður.
Dýragarðsstjórinn sagði við hollenska fjölmiðla, að Bokito yrði ekki tekinn af lífi þrátt fyrir þetta en breytingar yrðu gerðar á apasvæðinu.