Hjólaleiðangri slökkviliðsmanna undir slagorðinu "Ykkar öryggi - okkar áhætta" lauk við Reykjanesvita í dag. Níu slökkviliðsmenn höfuðborgarsvæðisins hjóluðu 750 km leið, „frá Fonti til táar“, á 10 dögum í þeim tilgangi að safna fé í styrktar- og líknarsjóð slökkviliðsmanna.
Slökkviliðsmenn hafa lengi barist fyrir betri tryggingum og fengu nýlega einhverja bót, en ekki nóg til að bæta þeim að vinnutapið að fullu. Styrktarsjóðurinn á að taka við og hjálpar upp á sakirnar að sögn Sverris Björnssonar, umsjónarmanns sjóðsins.
„Tilgangur sjóðsins er að styrkja þá starfsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem verða fyrir slysum eða sjúkdómum. Styrk má einnig veita vegna slyss eða sjúkdóma sem makar félagsmanna eða börn yngri en 20 ára verða fyrir. Þeir njóta forgangs sem þurfa að leita læknisaðstoðar erlendis og eiga við langtíma veikindi að glíma. Stjórn sjóðsins getur einnig kosið að styrkja málefni sem hún telur brýn og varða velferð einstaklinga eða hópa annarra en starfsmanna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins,“ að því er kemur fram á heimasíðu styrktarsjóðsins.