Olli Rehn: Umsókn Íslendinga um aðild að ESB yrði fagnað

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB
Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB Reuters

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál Evrópusambandsins segir að umsókn Íslendinga um aðild að sambandinu yrði fagnað og að teymi yrði umsvifalaust sett saman til að sjá um afgreiðslu slíkrar umsóknar. Þetta segir Rehn í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt í dag. Hann bendir þó á að Íslendingar verði sjálfir að taka slíka ákvörðun og sækja um.

Í viðtalinu er rætt við Rehn um stöðu Evrópusambandsins, einkum um komandi þingkosningar í Tyrklandi og þýðingu þeirra fyrir umsókn Tyrklands um aðild að sambandinu. Þá er rætt um mögulega aðild annarra ríkja, m.a. í A-Evrópu og um það hvar landamæri Evrópusambandsins liggi.

Blaðamaður Die Welt veltir fyrir sér þeim möguleika að Íslendingar sæki um aðild að sambandinu á næstu þremur til fjórum árum og spyr hvort Ísland sé velkomið í Evrópusambandið. Rehn svarar að Íslendingar séu að sjálfsögðu velkomnir en að þeir verði hins vegar sjálfir að taka slíka ákvörðun og sækja um.

Þá bendir Rehn á að Íslendingar tilheyri nú þegar Evrópska efnahagssvæðinu og að um 80% þeirra reglna sem gildi í ESB séu þegar í gildi hér á landi.

Hann segir svo að sambandið myndi fagna umsókn Íslendinga. „Ég myndi umsvifalaust setja saman teymi sem myndi sjá um umsóknina. Við myndum hefja viðræður fljótt og ganga frá samningi á skömmum tíma."

Aðspurður um það hvar landamæri Evrópusambandsins liggi segir Rehn að öll Evrópulönd sem virði mannréttindi og lýðræði geti sótt um, það sé skýrt tekið fram í reglum sambandsins. Rehn segir hins vegar rangt að útiloka lönd með því að draga línur á landakorti, ekki sé hægt að skilgreina landamæri Evrópu endanlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert