Um fimmtán manns hlutu meiðsl er rúta fór út af veginum í beygju efst á Bessastaðafjalli í Fljótsdal laust eftir hádegi í dag, en að sögn lækna á staðnum meiddist enginn lífshættulega. Hinir slösuðu hafa verið fluttir á sjúkrahús. Í rútunni voru um 30 manns, allt erlendir starfsmenn verktakafyrirtækisins Arnarfells.
Ekki er ljóst hvað olli slysinu, en rannsókn á því er í höndum lögreglunnar á Egilsstöðum. Rútan fór útaf í fyrstu kröppu beygjunni á veginum niður Bessastaðafjall. Slysstaðurinn er um fimm km frá Skriðuklaustri.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út, auk flugvélar gæslunnar, til að flytja slasaða á sjúkrahús. Einnig voru notaðar sjúkraflugvélar frá Akureyri og Egilsstöðum. Þá flutti flugvél Flugfélags Íslands lækna og hjúkrunarfólk austur.