Lögregla í Búrma leitar sænskra blaðamanna í landinu

Mótmælendur halda á lofti myndum af Aung San Suu Kyi, …
Mótmælendur halda á lofti myndum af Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma, við sendiráð landsins í Bangkok í Taílandi. AP

Lögreglan í Búrma hefur haft samband við fjölmiðla í Svíþjóð og krafist þess að fá upplýsingar um dvalarstað nafngreindra fréttamanna á þeirra vegum í landinu. Segja þeir öryggi fréttamannanna ógnað verði þeir áfram í landinu og að þeir verði aðstoðaðir við að komast úr landi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Þá hefur sænska ríkiútvarpið ákveðið að nafngreina ekki fréttamenn sína í landinu eftir að japanskur fréttamaður var skotinn þar til bana. „Það veldur manni áhyggjum þegar stjórnvöld af þessari gerð leita að blaðamönnum og reyna að leita þá uppi með því að hafa samband við leynilega tengiliði þeirra. Það er óhuggulegt að þeir skuli hafa það mikil völd,” segir Lasse Herneklint, fréttastjóri tv4nyheterna.se í samtali við Expressen.se.

Einnig var hringt á Expressen og beðið upplýsingar um dvalarstað blaðamannsins Lisa Jannerling, sem sá sem hringdi taldi að væri í Búrma. Sagði hann að lögregla þar ætlaði að hafa uppi á henni og senda hana heim henni að kostnaðarlausu. Þegar maðurinn var spurður um ástandið í Búrma sagði hann. „Það er allt í fínu lagi. Það hafi nokkrir glæpamenn mótmælt hækkun skatta en eftir nokkra daga fóru þeir að ráðast á almenning og þá neyddist lögreglan til að vernda almenning,” sagði hann.

Búrma, sem einnig gengur undir nafninu Myanmar, verður hér eftir nefnt Búrma í fréttum mbl.is. Er þar fylgt langri hefð og stefnu stjórnarandstöðunnar í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert