Ítalska liði Roma hefur áhuga á að fá íslenska varnarmanninn Ragnar Sigurðsson til liðs við félagið að því er fram kemur í sænskum miðlum í dag. Ragnar, sem er 21 árs gamall, hefur leikið mjög vel með Gautaborg í sænsku deildinni og stóð sig vel með íslenska landsliðinu í síðustu leikjum. Haft er eftir Arnóri Guðjohnsen, umboðsmanni Ragnars, að fleiri stórlið hefðu sýnt Ragnari áhuga, lið frá Englandi, Ítalíu og Frakklandi. Til að kaupa hann frá IFK þarf kaupandinn væntanlega að greiða tæplega 300 milljónir íslenskra króna.