Vilhjálmur verður borgarstjóri fram á þriðjudag

Dagur B. Eggertsson mun taka við embætti borgarstjóra á fundi …
Dagur B. Eggertsson mun taka við embætti borgarstjóra á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur á þriðjudag.

Formleg valdaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur fara fram á borgarstjórnarfundum en nýr borgarstjóri er kosinn þar. Þess vegna verður Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri áfram til þriðjudags þegar næsti reglulegi borgarstjórnarfundur verður haldinn.

Að sögn Margrétar Sverrisdóttur, borgarfulltrúa F-lista og tilvonandi forseta borgarstjórnar, mun forsætisnefnd borgarstjórnar koma saman í fyrramálið og ákveða dagskrá fundarins og gert er ráð fyrir að þar verði kosningar í embætti, þar á meðal embætti borgarstjóra, nefndir og ráð settar á dagskrá. Dagskrá borgarstjórnarfunda er venjulega send út um hádegisbil á föstudögum en hún þarf að liggja fyrir sólarhring fyrir fund.

Það hefur ekki gerst áður í Reykjavík að nýr meirihluti taki við á miðju kjörtímabili. Að sögn Gunnars Eydal, skrifstofustjóra borgarstjórnar, má gera ráð fyrir því að í millibilsástandi, eins og nú er þegar kjörinn borgarstjóri hefur ekki meirihluta í borgarstjórn á bakvið sig, verði virk ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna, þar sem segir að eftir að kjörtímabili fráfarandi sveitarstjórnar er lokið og þar til löglega kjörin sveitarstjórn tekur við störfum geti starfandi sveitarstjórn ekki innt af hendi neinar greiðslur eða gengist undir nokkrar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélagsins nema samkvæmt heimild í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi félagsmálaráðuneytis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert