Kaupthing ASA, dótturfélag Kaupþings banka í Noregi, og Glitnir Securities ASA, dótturfélag Glitnis banka, eru meðal 90 almenningshlutafélaga þar sem aðeins karlar sitja í stjórn. Norsk stjórnvöld segja, að uppfylli fyrirtæki ekki kröfur þarlendra nýrra laga um að minnsta kosti 40% stjórnarmanna séu konur verði þeim lokað á fyrri hluta næsta árs.
Aftenposten hefur eftir Karita Bekkemellem, jafnréttisráðherra Noregs, að nú sé kominn tími til að framfylgja lögunum af hörku og fyrirtæki fái frest til 1. janúar til að uppfylla lagaskyldur sínar.
Nýjar tölur sýna, að af 580 almenningshlutafélögum uppfylla 140 ekki lagakröfur um að minnsta kosti 40% stjórnarmanna séu konur. Þar af eru 90 félög þar sem aðaeins karlar sitja í stjórn. Alls vantar 200 konur í stjórnir þessara félaga.
Bekkemellem segir, að fyrirtæki fái fyrst sent bréf þar sem þeim er gefinn fjögurra vikna frestur til að bæta úr. Eftir það verður fyrirtækjunum lokað.