Íslendingar, sem eru meðal kaffiþyrstustu þjóða heims, þurfa ef til vill að fara að seilast dýpra í budduna er þeir fá sér dagsskammtinn, því að hækkunar á heimsmarkaðsverði á kaffibaunum kann að gæta hérlendis, verði hún varanleg.
Heimsmarkaðsverð á kaffibaunum náði tíu ára hámarki í síðustu viku. Helsta ástæðan var ótti við uppskerubrest í Brasilíu, stærsta kaffibaunaræktanda heims. Þá ríkir óvissa um gæði uppskerunnar í Víetnam, sem er næst stærsti kaffibaunaræktandinn.
Á síðasta uppskerutímabili dróst framleiðslan í Brasilíu saman um tuttugu og þrjú prósent vegna þurrka, og nam þrjátíu og tveim komma sex milljónum poka. Heimsframleiðslan á því tímabili var alls 114 milljónir poka, eða mun minni en tímabilið á undan.