Aukasólir þessar sáust í rosabaugi á Fjarðarheiði skömmu fyrir hádegi í dag og festi Jóhanna Gísladóttir þær á mynd en aukasólir er ljósfyrirbæri, sem myndast við ljósbrot sólargeisla í ískristöllum í grábliku, gjarnan með rosabaugi. Aukasól, sem sést vestan við sólu nefnist gíll, en úlfur sú sem sést austan við. Ef gíll og úlfur sjást samtímis er sólin sögð í úlfakreppu.
Munnmæli segja að ekki sé gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni eins og í þessu tilviki.