Fimm handteknir vegna árásar á Hellisheiði

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á Selfossi handtók fimm karlmenn í gærkvöldi og í nótt í tengslum við rannsókn á því þegar maður var stunginn með hnífi í fót- og handlegg í að vinnubúðum við Hellisheiðarvirkun á föstudagskvöld. Mennirnir dvelja nú í fangageymslum á Selfossi og bíða yfirheyrslu.

Starfsmenn verktaka á staðnum höfðu setið að drykkju sem leiddi til ósættis milli manna. Úr urðu einhver átök sem lauk með því að einn úr hópnnum stakk vinnufélaga sinn og landa með hníf. Við rannsókn á slysadeild kom í ljós að áverkarnir á fórnarlambinu voru ekki alvarlegir.

Sá sem hnífnum beitti hvarf á brott en gaf sig fram við lögreglu í Reykjavík í gær.

Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins og ekki liggur enn fyrir um atburðarásina né hvað brotamanninum gekk til með árásinni. Mjög mikil ölvun var á vettvangi og segir lögreglan frásagnir manna í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert