Yfir 150 þúsund króna sekt fyrir hraðakstur

Hraðakstur er alvarlegt brot
Hraðakstur er alvarlegt brot Sverrir Vilhelmsson

Hraðakstursbrot 17 ára ökumanns sem tekinn var á 212 km hraða í nótt fer út fyrir hefðbundin viðmiðunarmörk sekta og sviptinga.  Þetta brot er það alvarlegt að dómari mun taka ákvörðun um lengd aksturssviptingar og upphæð sektar.

Ökumaðurinn var með mánaðargamalt ökuskírteini og því með bráðabirgðaskírteini sem gildir í 3 ár.  Refsing fyrir hraðakstur upp að 170 km hraða miðast við að minnsta kosti 3 mánaða sviptingu og 150.000 króna sekt.   

Að sögn Einars Magnús Magnússonar upplýsingafulltrúa Umferðarstofu, eru handhafar bráðabirgðaskírteinis, sem fá 4 refsipunkta eða eru sviptur ökuréttindum, einnig settir í akstursbann.  

Einar segir að akstursbann og svipting ökuréttinda sé tvennt ólíkt og að akstursbann geti verið lengur í gildi en svipting ökuréttinda.  Akstursbanni er ekki aflétt fyrir en viðkomandi hefur lokið námskeiði og tekið ökuprófið að nýju.  

Einar segir að það sé litið svo á að þeir einstaklingar sem missa ökuprófið hafi í raun fallið á prófi úti í umferðinni.  Á námskeiðinu sem afléttir akstursbanni er tekið öðruvísi á málum en í hefðbundnu ökuprófi.  Farið er nánar yfir afleiðingar áhættuhegðunar í umferðinni, og lögð  áhersla á að skerpa ábyrgð ökumannsins.  

Á vefsíðu Umferðarstofu má finna reiknivél fyrir viðurlög og sektir vegna hraðaksturs og ölvunarakstur. http://us.is/id/3971

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka