Sextán ára piltur á Akranesi hringdi í Hvíta húsið og pantaði símaviðtal við George Bush, forseta Bandaríkjanna. Vífill Atlason komst fyrir nokkru yfir símanúmer í Hvíta húsinu sem ekki er ætlað almenningi. Vífill hringdi í númerið, sagðist vera Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og pantaði viðtal hjá Bush.
Þegar Vífill hringdi í Hvíta húsið var hann spurður ýmissa spurninga, m.a. um fæðingardag og hvenær hann hefði tekið við embætti, og segist Vífill hafa svarað spurningunum skilmerkilega með hjálp alfræðiorðabókarinnar Wikipediu. Hann fékk á endanum samband við ritara forseta sem fann tíma og stóð til að Bush hringdi í Vífil síðastliðið mánudagskvöld.
Ekkert varð þó af símtalinu því lögregla heimsótti Vífil á mánudaginn og spurði Vífil um málið og meðal annars hvernig hann hefði fengið umrætt símanúmer í hendur.
Varla hefur reynst erfitt fyrir lögreglu að hafa uppi á Vífli því hann gaf upp eigið símanúmer og átti Bush að hringja í það númer.
„Það er greinilega ekki hægt að treysta þeim hjá Hvíta Húsinu fyrir svona upplýsingum því ég ítrekaði að þetta væri leynilegt númer, sem þeir mættu alls ekki láta frá sér," segir Vífill.
Vífill segir aðspurður að ekki hafi staðið til að valda neinu uppnámi í Hvíta húsinu, ef af viðtalinu hefði orðið hugðist hann einfaldlega spjalla við Bandaríkjaforseta og bjóða honum til Íslands.
Hjá skrifstofu forseta Íslands fengust þau svör að skrifstofan hefði ekkert að segja um málið.
Hjá lögreglunni á Akranesi fengust þær upplýsingar að vissulega hefði verið rætt við Vífil. Lögregluembættinu á Akranesi barst erindi frá greiningadeild ríkislögreglustjóra, sem hafði fengið beiðni frá Hvíta húsinu um að kanna málið.
Jóhanna Gestsdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni á Akranesi, segir að uppátækið sé varla saknæmt, og efast um að eftirmál verði af því.
Það sem bandarískum yfirvöldum þykir hins vegar forvitnilegast er að komast að því hvar Vífill komst yfir númerið, sem alls ekki á að vera opinbert. Vífill segist hafa haft númerið lengi inni á farsíma sínum og muni ekki lengur hjá hverjum hann hafi fengið það.