Þræðir á bíl úr fötum drengs

Frá vettvangi umferðarslyssins í Reykjanesbæ.
Frá vettvangi umferðarslyssins í Reykjanesbæ. mbl.is/Þorgils

Erlendur karlmaður á fertugsaldri, sem verið hefur í gæsluvarðhaldi frá því um síðustu mánaðamót vegna gruns um að hann hafi orðið valdur að dauða fjögurra ára drengs í Reykjanesbæ, var í dag úrskurðaður í farbann til 8. janúar.

Gæsluvarðhald yfir manninum rann út í dag og krafðist lögreglan á Suðurnesjum þess að varðhaldið yrði framlengt um fjórar vikur. Dómari við Héraðsdóm Reykjaness varð ekki við því en úrskurðaði manninn í farbann. Hefur lögreglan kært þann úrskurð til Hæstaréttar.

Efnisþræðir, sem fundust á bíl mannsins, voru sendir til tæknirannsóknar hjá tæknideild norsku lögreglunnar. Lögreglan á Suðurnesjum segir, að niðurstaða þeirrar rannsóknar liggi nú fyrir og staðfesti, að  efnisþræðirnir samsvari efnisþráðum sem teknir voru úr fatnaði drengsins. Þessi niðurstaða styðji enn frekar þá tæknirannsókn, sem gerð hafði verið á bifreiðinni og unnin var af tæknideildum lögreglu á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu með aðkomu réttarlæknis og sérfræðings frá fræðslumiðstöð bílgreina.

Maðurinn, sem handtekinn var 1. desember, hefur þráfaldlega neitað að hafa valdið slysinu. Hann var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. desember og það var framlengt í síðustu viku. 

Lögreglan segir, að rannsókn málsins sé umfangsmikil og flókin og að svo stöddu verði ekki veittar frekari upplýsingar um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert