„Ótrúlegur heimur nýrra tækifæra“

„Í staðinn fyrir að við þurfum að eyða árum í að kenna gervigreind að gera eitthvað, nú geta þær [tölvur] lært það sjálfar. Þetta opnar ótrúlegan heim af nýjum tækifærum,“ segir Yngvi Björnsson prófessor í tölvunarfræði við HR og skákáhugamaður um sigur gervigreindarforritsins AlphaZero á skáktölvunni Stockfish.

Eftir að AlphaZero var kennt mannganginn tók það forritið einungis fjórar klukkustundir að ná færni til að sigra Stockfish, bestu skáktölvu veraldar, í skák. Í viðtali sem Háskólinn í Reykjavík lét framleiða í tilefni af þessum áfanga í þróun gervigreindar segist Yngvi þó ekki vera svartsýnn fyrir hönd mannkyns vegna þeirra möguleika sem verið sé að leysa úr læðingi.

„Hollywood-myndin um að tölvur fái sjálfsvitund og sjái það sem markmið sitt að eyða okkur mönnunum, ég held að það sé bara þjóðsaga. Hinsvegar held ég að það sé nokkuð ljóst að heimurinn komi til með að breytast mjög mikið með nýrri tækni. Þetta þýðir til dæmis að mörg störf sem að við mennirnir höfum verið að vinna verði sjálfvirknivædd. Þetta er ekki bara spurning um tæknina það eru lögfræðilegar spurningar sem þarf að svara svo og siðferðilegar. Þetta verða stóru viðfangsefnin í framtíðinni, hvernig við lifum með tækninni og gervigreindinni.“

Í myndskeiðinu ræðir Yngvi nánar um einvígi AlphaZero og Stockfish og þýðingu tíðindanna.

Umfjöllun BBC um sigur AlphaZero.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert